VINNUPRÓFANIR

Vinnuprófanir Sinnum

Vinnuprófun Sinnum veitir fólki tækifæri til að kanna stöðu sína, setja sér raunhæf markmið og prófa sig áfram á vinnumarkaðinum. Vinnuprófanir eru ætlaðar öllum þeim sem hafa verið án atvinnu í einhvern tíma, svo sem vegna veikinda eða langtímaatvinnuleysis. Vinnuprófunin fer fram með stuðningi fagaðila sem fylgir einstaklingnum frá upphafi til enda.

Lögð er áhersla á að greina stöðu þátttakenda með umræðu um:

  1. Hve mikið geturðu unnið og hvað hentar þér best?
  2. Hefurðu verið frá vinnu um lengri eða skemmri tíma?
  3. Hvar liggja hæfileikar þínir og reynsla?
  4. Langar þig að komast í starf sem hentar þér og þinni færni og getu?

Hjá Sinnum þekkjum við þessar ólíku aðstæður vel, að skrefin inn á vinnumarkað á ný eftir vikur, mánuði eða ár geta verið þung. Þess vegna bjóðum við stuðning svo hægt sé að prófa sig í vinnu á forsendum hvers og eins. Lögð er áhersla á að skoða alla möguleika og horfa til framtíðar.

Vinnuprófun Sinnum skiptist í nokkra þætti:

  • Vinnuprófunin sjálf þar sem þú færð tækifæri til að prófa þig áfram í starfi.
  • Viðtöl við fagaðila, staðan skoðuð reglulega, rætt um upplifun þína, verkefni, vonir og leiðir til árangurs.
  • Sjálfstyrkingarverkefni sem þú tekur með þér heim og vinnur á þínum hraða og á þínum forsendum.
  • Efling virkni og þátttöku almennt, í daglegu lífi.
  •  Markmiðasetning.

Með stuðningi og ráðgjöf fagaðila er lögð áhersla á að greina heildarstöðu einstaklingsins og hvetja og aðstoða viðkomandi við að sækjast eftir  hentugri vinnu.

Sinnum er með samning við Virk Starfsendurhæfingarsjóð um vinnuprófanir.

Í honum felst að ráðgjafar Virk geta nú boðið einstaklingum sem hafa verið utan vinnumarkaðar, að prufa sig áfram í vinnu með aðstoð sérfræðinga hjá Sinnum. Almennt er hver vinnuprófun 8 vikur og er hún greidd af Virk og þátttakendum að kostnaðarlausu.