Móðir mín er að koma af sjúkrahúsi á morgun og þarf ýmis konar persónulega aðstoð til að komast í gegnum daginn. Getið þið veitt aðstoð með svo skömmum fyrirvara?
Almennt getur Sinnum heimaþjónusta veitt aðstoð með mjög litlum fyrirvara. Lögð er áhersla á viðbragðsflýti og sveigjanlega þjónustu til að unnt sé að mæta þörfum einstaklingsins.
Ég á orðið mjög erfitt með að sjá sjálf um þrifin á eigin heimili og eftir að ég varð slæm í bakinu get ég illa þrifið gólfin og baðherbergið. Hvað kostar að fá ykkur til að annast vikuleg þrif?
Í sumum tilvikum greiða sveitarfélög fyrir þá þjónustu sem Sinnum heimaþjónusta veitir og er þá aðallega um að ræða tilvik þar sem einstaklingar, vegna öldrunar, fötlunar eða sjúkdóma, hafa fengið þjónustumat hjá sínu sveitarfélagi. Í þeim tilvikum greiða sveitarfélögin fyrir þrifin. Ef einstaklingur er ekki með þjónustumat frá sínu sveitarfélagi greiðir hann sjálfur fyrir þrifin og fer gjaldið þá eftir stærð heimilisins og umfangi þrifanna. Nákvæmara verð fæst uppgefið hjá þjónustustjóra í s: 519 1400.
Við hjónin eigum orðið erfitt með að elda okkar eigin kvöldmat og þar að auki eigum við það til að gleyma að taka lyfin okkar síðdegis. Er hægt að fá aðstoð frá ykkur við að elda matinn og aðstoða okkur við að taka lyfin?
Slíka aðstoð er hægt að veita með litlum fyrirvara bæði til lengri tíma og skemmri. Þegar um er að ræða aldraða, fatlað fólk eða sjúka er þjónustan oft greidd af viðkomandi sveitarfélagi en annars er hún greidd af notandanum sjálfum.
Ég bý einn og á erfitt með að sinna minni daglegu umhirðu. Mér finnst of lítið að fá böðun einu sinni í viku sem ég fæ nú frá heimahjúkrun og myndi gjarnan vilja fá böðun þrisvar í viku. Get ég keypt böðun frá ykkur tvisvar í viku?
Sjálfsagt mál. Slíka aðstoð er hægt að veita með litlum fyrirvara bæði til lengri og skemmri tíma.
Ég er að fara í sumarfrí í 3 vikur og hef áhyggjur af öldruðum föður mínum sem býr einn. Gætuð þið tekið að ykkur að annast hann í þann tíma sem ég er í burtu?
Hægt er að gera heildarsamninga við Sinnum heimaþjónustu þar sem veitt er mjög víðtæk þjónusta til lengri eða skemmri tíma. Sé um að ræða marga þjónustuþætti þá gerum við tilboð í heildarþjónustuna.